Árið 2022

Áframhaldandi viðsnúningur

Viðburðaríkt ár er að baki þar sem viðsnúningur í rekstrinum hélt áfram. Félagið hefur sett stefnu á að vera framúrskarandi á öllum sviðum starfseminnar þar sem viðskiptavinir eru í fyrsta sæti. Uppskera þeirrar stefnu er að skila sér.

Nánast allir mælikvarðar eru á leið í rétta átt, ánægja viðskiptavina og fjöldi heimila í fjarskiptum fer hækkandi, fjöldi áskrifenda á sjónvarpsþjónustum stendur vel, Vísir er mest sótti vefur landsins og útvarpsstöðvar okkar eru með meirihluta allrar útvarpshlustunar á landinu. Samhliða þessum árangri höfum við áfram hagrætt í rekstrinum sem skilaði sér í rekstrarhagnaði upp á 1.592 milljónir árið 2022 sem er veruleg aukning frá fyrra ári ef leiðrétt er fyrir einskiptisliðum sem tengjast sölu á óvirkum farsímainnviðum í árslok 2021.

Sýn gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu með rekstri fjarskipta og fjölmiðla. Við viljum vera fyrirmyndar fyrirtæki og horfum fram á veginn með áherslu á sjálfbæra uppbyggingu þar sem nýsköpun og framþróun er lykilatriði. Skipaður var stýrihópur sem ber ábyrgð á innleiðingu sjálfbærni áherslna Sýnar sem og Global Reporting Initiative (GRI) staðalsins þar sem horft er til hagsmuna lykil haghafa.

Undir lok síðasta árs kynntum við nýtt skipulag og tóku tvær konur sæti í framkvæmdastjórn. Þriðja konan tók sæti í framkvæmdastjórn í ársbyrjun 2023 og nú sitja alls fjórar öflugar konur í framkvæmdastjórn félagsins. Við höfum unnið að áherslubreytingum þar sem við skerpum á grunn rekstrareiningum Sýnar. Allar einingarnar starfa á krefjandi og spennandi samkeppnismarkaði:

  • Vodafone - fjarskipti sem heldur utan um alla fjarskiptastarfsemi félagsins bæði til fyrirtækja og einstaklinga,
  • Fjölmiðlar sem reka meðal annars Stöð 2, Stöð 2+, Stöð 2 Sport, Vísi, Bylgjuna og Tal,
  • Sýn - innviðir þar sem allur innviðarekstur í farsíma, fastlínu og dreifingu situr, og
  • Endor sem er alhliða þjónustufyrirtæki í upplýsingatæknirekstri en allt starfsfólk kerfis- og notendaþjónustu samstæðunnar færðist til Endor sem styrkir þann rekstur verulega.

Við horfum björtum augum til framtíðar og munum kappkosta við að gefa betri innsýn í hverja einingu á næstu misserum.

Í desember skrifuðum við undir samning við Ljósleiðarann ehf. um sölu á stofnneti Sýnar fyrir 3 milljarða króna. Samhliða gerðu félögin þjónustusamning til 12 ára en hann tryggir Vodafone aðgang að bestu mögulegri ljósleiðaratækni, nægri bandvídd og hagstæðum kjörum á tengingum bæði innanlands og utan. Viðskiptavinir okkar munu njóta góðs af þessum þjónustusamningi í gegnum hagstætt vöruframboð. Kaupin eru í meðhöndlun Samkeppniseftirlitsins en vonir standa til að það ferli klárist á öðrum ársfjórðungi. Andvirði af sölu stofnnetsins verður að hluta skilað til hluthafa.

Það er okkur kappsmál að einfalda vöruframboð til viðskiptavina og verðlauna þá fyrir heildarviðskipti. Við settum Fjölskyldupakkann á markað árið 2021 og hefur hann slegið í gegn hjá fjölskyldum landsins. Undir lok síðasta árs kynntum við til leiks vöruna Stöð 2+ og Net þar sem viðskiptavinir hafa kost á að raða saman pakka sem hentar á mjög hagstæðum kjörum. Við munum halda áfram á þessari braut einföldunar á öllum sviðum félagsins.

Uppbygging 5G farnetskerfisins er á áætlun og voru á árinu teknir í notkun 70 sendar í um 40 bæjarfélögum. Fyrir farsíma viðskiptavini okkar þýðir þetta betra og hraðara samband en gerir einnig kleift að bjóða háhraða heimatengingar þar sem ljósleiðari er ekki í boði. Hlutanetið (e. IoT) heldur áfram að vera vaxtarbroddur og leiðir Vodafone - fjarskipti innlenda markaðinn með góðum stuðningi og tæknilausnum frá Vodafone Group. Heimurinn er í sífellt auknum mæli að nýta sér farsíma- og hlutanet til að umbreyta og bæta líf okkar og hagsæld. Hins vegar verður það ekki gert án tenginga frá fjarskiptafélögum. Samstarfið okkar við Vodafone Group skiptir okkur miklu máli og er styrkur sem viðskiptavinir okkar fá að njóta. Við nýtum þekkingu Vodafone Group í miklum mæli og erum öryggisvottað fyrirtæki með sterka stöðu á fyrirtækjamarkaði.

Vísir heldur áfram að vera vinsælasti vefur landsins og þar hefur nýsköpun verið mikil. Við kynntum Innherja, nýjan áskriftarvef með viðskiptafréttir, til leiks. Viðtökur hafa verið góðar og ætlum við okkur að styrkja hann enn frekar. Tal er hlaðvarpsveitan okkar sem hefur vaxið hratt. Nú síðast bættist Tvíhöfði við hlaðvarpsflóruna okkar sem er spennandi viðbót. Vísir mun leika stórt hlutverk í framtíðaráformum okkar og stefnan er að auðvelt verði að neyta allra okkar miðla í gegnum Vísi.

Við tökum hlutverk okkar í samfélaginu alvarlega og endurspeglar stefna félagsins nálgun okkar á sjálfbærni í rekstri, með ríkri áherslu á umhverfis- og félagsþætti í starfseminni, góða stjórnarhætti og áhættustýringu. Meðal annars vegna þessa leggjum við áherslu á framleiðslu innlends efnis sem er bæði fræðandi og skemmtilegt. Við sýnum frá rúmlega sexhundruð íslenskum kappleikjum á hverju ári og höldum úti stærstu sjálfstæðu fréttastofu landsins ásamt því að texta og talsetja mikið af erlendu barnaefni. Við erum stolt af því að halda með þessum hætti á lofti íslenskri menningu og tungu.

Framundan eru spennandi tímar á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði og ætlum við okkur að vera í fararbroddi.

Yngvi Halldórsson, forstjóri

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.