Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.
Bættur rekstur, breytt ásýnd
Árið 2022 var ár breytinga hjá Sýn. Umtalsverðar breytingar urðu í hluthafahópi félagsins, ný stjórn var kjörin og forstjóraskipti urðu. Nýju fólki fylgja nýjar áherslur, en framhaldið byggist þó auðvitað fyrst og fremst á þeim öfluga hópi fólks sem starfar hjá félaginu.
Rekstur, rekstur, rekstur
Fyrstu mánuðir nýrrar stjórnar og stjórnenda hafa farið í að bæta kjarnarekstur Sýnar - við réðumst í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir og einblíndum á bætta samninga við birgja. Ekki var vanþörf á, enda þrýstingur á framlegð fyrirtækja í umhverfi launahækkana, verðbólgu og hárra vaxta. Á slíkum tímum reynir á léttleika og sveigjanleika í rekstri. Við teljum okkur hafa náð árangri á þeirri vegferð, og birtum samhliða ársuppgjöri afkomuspá fyrir árið 2023, sem ber þess merki.
Í desember var tilkynnt um að sölu á grunnneti Sýnar til Ljósleiðarans væri lokið, og er nú einungis beðið eftir samþykki samkeppnisyfirvalda. Salan mun styrkja lausafjárstöðu Sýnar enn frekar, og gera okkur kleift að skila fjármunum til hluthafa í enn frekara mæli.
Öflugar einingar
Ein af vinnukenningum okkar sem komu að Sýn sem nýir hluthafar á árinu var að einingar félagsins væru vanmetnar á markaði. Eftir að hafa kynnst félaginu að innan hefur sú trú styrkst enn frekar.
Það er ekki öllum ljóst en Sýn byggir á arfleifð frumkvöðla. Fjarskiptastarfsemin reis úr grunni fyrirtækja sem fyrst buðu ríkinu byrginn. Stöð 2 er fyrsta einkarekna sjónvarpsstöð landsins, og Bylgjan fyrsta útvarpsstöðin. Vísir er frumkvöðull á sviði frétta á netinu. Þessi frumkvöðlaandi lifir enn innan félagsins. Að fylgjast með fagfólki með áratugareynslu í sjónvarpi setja Idolið á svið á föstudagskvöldi er upplifun. Það eru sömuleiðis forréttindi að fá tækifæri til að að átta sig á þeirri yfirburðaþekkingu á fjarskiptum og innviðum sem leynist innan herbúða Sýnar.
Það þarf að leysa þá einstöku krafta sem þessu fylgja úr læðingi. Við höfum nú skipt félaginu í fjóra hluta: Vodafone fjarskipti, Fjölmiðla, Sýn innviði og Endor. Með því skerpum við á sýnileika þeirra eininga sem mynda Sýn og færum aukna rekstrarábyrgð til stjórnenda hverrar einingar. Markaðurinn fær svo að fylgjast betur með því hvernig rekstur Sýnar kemur heim og saman.
Nýtum kosti markaðarins
Sýn er lítið félag á markaði. Hluthafar fáir og velta með bréf félagsins allajafna í minna lagi. Við höfum þó verið þeirrar skoðunar að Sýn eigi að vera skráð á hlutabréfamarkað. Verkefnið er því að gera félagið að enn meira spennandi fjárfestingarkosti, fjölga hluthöfum og gera markað með bréf félagsins virkari.
Að okkar mati kynnum við nú félag með breytta ásýnd. Afkomuspá fyrir árið 2023 gefur fyrirheit um stórbættan rekstur. Við erum aflögufær um umtalsverða fjármuni sem við hyggjumst skila til hluthafa á árinu og munum efla upplýsingagjöf svo betur megi gera sér grein fyrir rekstri félagsins.
Við látum verkin tala hér eftir sem hingað til, og horfum bjartsýn og full eftirvæntingar fram á veginn. Á árinu 2022 fjölgaði hluthöfum Sýnar um tæp 13%. Ágætt. En betur má ef duga skal. Við viljum fá sem allra flesta hluthafa - stóra og smáa - með okkur á vagninn.
Arfleifð í innviðum
Á þessum tímamótum er viðeigandi að senda Heiðar Guðjónssyni, fyrrverandi forstjóra og stjórnarformanni Sýnar, góðar kveðjur. Heiðar verður alltaf stór hluti af sögu félagsins, og verður vafalaust minnst sem brautryðjanda í íslensku viðskiptalífi þegar kemur að innviðum og þeim verðmætum sem í þeim felast.
Fyrir hönd Sýnar vil ég óska Heiðari alls hins besta í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Ef ég þekki hann rétt þá missir Sýn hann þó ekki sem bandamann og öflugan talsmann fyrir viðskiptafrelsi og minni ríkisafskiptum!
Að lokum vil ég þakka starfsfólki, stjórn og hluthöfum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu.
Jón Skaftason, stjórnarformaður