Samfélagið og sjálfbærni

Öryggi

Sýn hf. fylgir í hvívetna lögum og reglum og einsetur sér að sýna starfsfólki og viðskiptavinum virðingu í öllum samskiptum.

Upplýsingaöryggi

Árið 2014 hlaut Sýn vottun á stjórnkerfi félagsins sem byggir á alþjóðlega staðlinum ISO27001. Vottunin staðfestir að unnið sé í samræmi við kröfur staðalsins. Ytri úttektaraðilar framkvæma árlega úttekt á stjórnkerfið og var vottunin formlega endurnýjuð í mars 2022. Sýn leggur áherslu á jákvæða öryggismenningu með það að markmiði að öryggi og vernd upplýsinga verði venja í daglegum störfum starfsfólks. Allir sem hefja störf hjá félaginu fara í gegnum ítarlegt nýliðanámskeið þar sem m.a. er lögð áhersla á öryggisvitund, persónuvernd og fylgni við verklag. Sýn hefur komið upp rafrænni fræðslugátt, UNI, þar sem er að finna fjöldann allan af ítarlegum rafrænum námskeiðum. Árlega á allt starfsfólk félagsins að taka rafræn námskeið um upplýsingaöryggi og persónuvernd. Á árinu 2022 var sett í fræðsludagskrá að hafa sérstaka þjálfun og fræðslu um öryggismál fyrir allar deildir og er sú vinna enn í gangi.

Vinnuvernd

Sýn hefur sett sér verklag samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO45001:2018 og tryggir þannig að markmið félagsins með vinnuverndarstarfi sé að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum sé í lagi. Framkvæmt er mat á áhættu á störfum starfsfólks samkvæmt verklagi og stuðlað að heilsuvernd. Einnig er tryggt að starfsfólk á tæknisviði fái árlega þjálfun.

Vinnuvernd er hluti af stjórnkerfi félagsins og til staðar er öryggisnefnd í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglur. Verkefni hópsins er m.a. að skipuleggja aðgerðir, fræðslu og hafa eftirlit með vinnuaðstöðu starfsfólks og að ráðstafanir skili tilætluðum niðurstöðum. Reglulega eru framkvæmdar mælingar á geislun eða rafsegulbylgjum til að tryggja öryggi og heilbrigði almennings, starfsfólks og verktaka eða þjónustuaðila. Tilraunir til ýmiskonar fjársvika í gegnum tölvupóst eða smáskilaboð hefur aukist töluvert undanfarin ár og er lögð áhersla á að bregðast við eins og fljótt og mögulegt er til að verja viðskiptavini félagsins.

Öll atvik eða frávik frá verklagi eru skráð, greind og gripið er til aðgerða þegar þörf er á því. Skráð voru fimm minni háttar slys á árinu. Jafnframt er haldið utan um alvarlegar hótanir í garð starfsfólks og er er málum fylgt eftir í samræmi við verklag.

Vellíðan og heilsa starfsfólks

Störf innan Sýnar hafa verið áhættumetin í samræmi við áhættustefnu félagsins og hefur verið komið á sérstöku verklagi fyrir þau störf sem metin hafa verið með hæsta áhættustig miðað við vinnu við hættulegar aðstæður þ.e. störf þar sem unnið er í hæð, með rafmagn eða ef hætta er á geislun. Fjarskiptafélögin hafa jafnframt innleitt sameiginlegt verklag um vinnu við þessar aðstæður. Markmiðið er að starfsfólk fái nægilega þjálfun og því er félagið með virka fræðsluáætlun.

Jafnréttisáætlun

Sýn hlaut í ágúst 2019 formlega jafnlaunavottun á allt félagið en úttektin var framkvæmd af BSI á Íslandi. Með vottuninni staðfestist að hjá Sýn er starfrækt jafnlaunakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.

Lögð er áhersla á að allt starfsfólk sé metið að eigin verðleikum og umburðarlyndi sé ríkjandi þáttur í samskiptum. Ofbeldi, einelti eða áreitni er ekki liðið innan félagsins og eru til staðar skýrir ferlar svo taki megi sem best á slíkum málum ef þau koma upp. Stuðlað er að fjölbreytileika í starfsmannahópi til að endurspegla stóran viðskiptavinahóp félagsins, með það að markmiði að nýta sem best hæfileika hvers og eins. Sýn hefur einnig markað sér jafnréttisáætlun í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Áætlunin tekur til áranna 2021-2023 og á að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum og að hæfileikar hvers og eins fái notið sín. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisáætlun og jafnréttislög og er með öllu óheimil. Innan Sýnar starfar jafnréttisnefnd, skipuð þremur starfsmönnum af báðum kynjum.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.