Okkar Sýn

Mikilvægir innviðir

Félagið hefur á síðustu tveimur áratugum byggt upp öflugt fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna. Innviði, dreifikerfi fastlínu, farsíma, sjónvarps og útvarps er byggt á útstöðvum, sendum, miðlægum búnaði og flutningskerfum.

Innviðir félagsins tryggja samkeppnishæfni og framlegð á virkum fjarskiptamarkaði. Sýn er með fjarskiptabúnað á yfir 800 stöðum á Íslandi og í fjórum löndum til viðbótar en öll kerfi félagsins eru vöktuð allan sólarhringinn af stjórnborði sem einnig vaktar kerfi Neyðarlínunnar og annarra fjarskiptafélaga. Sýn tryggir þannig viðskiptavinum félagsins örugga, síma-, internet- og gagnaflutningsþjónustu til og frá landinu.

Sala á stofnneti Sýnar

Þann 5. september 2022 undirrituðu Sýn hf. og Ljósleiðarinn ehf. samkomulag um einkaviðræður um kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar, sem hefur verið í uppbyggingu síðustu 22 árin, ásamt helstu skilmálum samninga um langtíma þjónustusamning milli félaganna.

Þann 20. desember var kaupsamningur um kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar og langtíma þjónustusamningur milli félaganna undirritaðir. Umsamið kaupverð er 3.000 m.kr., kaupsamningsgreiðsla mun innt af hendi í áföngum á næstu mánuðum og verður kaupverðið að fullu greitt eigi síðar en 12 mánuðum frá afhendingu hinna seldu eigna. Hinar seldu eignir eru bókfærðar á 564 m.kr. og nemur söluhagnaður því 2.436 m.kr. og mun bókfærast að fullu við afhendingu.

Samhliða kaupsamningi hefur verið gerður þjónustusamningur milli félaganna til 12 ára um heildsöluaðgang og þjónustu yfir burðar- og aðgangsnet Ljósleiðarans, sem og þjónustu um internettengingar til útlanda. Þessi einföldun á rekstri innviða Sýnar skilar sér í lægri fjárfestingaþörf og lægri rekstrarkostnaði til framtíðar. Með sölunni er stuðlað að uppbyggingu og rekstri á öflugu fjarskiptaneti. Þar sem lögð er aukin áhersla á hágæða fjarskiptaþjónustu með öflugum tæknibúnaði og mikilli flutningsgetu á hagstæðu verði.

Samrunatilkynning vegna kaupa Ljósleiðarans ehf. á stofnneti Sýnar hf. ásamt gerð langtíma þjónustusamnings um kaup á fjarskiptaþjónustu er nú til umfjöllunar og meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

5G uppbygging

mastur 5G uppbygging Sýnar hófst með krafti árið 2022, en tæknimenn félagsins gangsettu 70 5G senda í um 40 bæjarfélögum. Á næstu 2 árum mun uppsetning halda áfram af miklum krafti og fyrirhugað er að klára uppsetningu á yfir 130 sendum í 55 bæjarfélögum í lok árs 2023. Á árinu 2024 er stefnan sett á að fjöldi 5G senda verði um 200 í 65 bæjarfélögum, eða um 30% af sendastöðum Sýnar. Í árslok 2022 var Sýn með 60 5G reikisamninga við erlend fjarskiptafélög og 5G þjónustu í 45 löndum. Sýn er með metnaðarfullar áætlanir og ætlar að vera leiðandi á íslenskum markaði í 5G þjónustum bæði innanlands og erlendis.

Hvað er 5G?

5G er næsta kynslóð farneta, þessi kynslóð hefur verið kölluð net iðnaðarins og er í raun límið í fjórðu iðnbyltingunni, forsenda fyrir því að ótal nettengdir hlutir og kerfi geti sent gögn sín á milli á leifturhraða. 5G byggir á hagkvæmari og umhverfisvænni tækni búnaðarins. Þannig er búnaður sem notaður verður í 5G (t.d. sendabúnaður) orkusparandi og minni um sig og fellur þannig betur að umhverfinu. 5G er öruggara en fyrri farnet eins og 3G og 4G enda var mikil vinna lögð í að auka öryggi í vinnslu staðla fyrir 5G. Meiri dulkóðun á gögnum verður í 5G og því verður erfiðara að rekja og eiga við tengingar. 5G byggir meira á hugbúnaði í skýinu sem gefur meiri möguleika á að fylgjast með mögulegum ógnum.

Með 5G býðst stóraukinn hraði, talinn í gígabitum á sekúndu (Gbps) og mun styttri tengitími, en hægt er að þjónusta 1.000.000 tengd tæki á hverjum ferkílómetra miðað við 200 tengd tæki á 4G, en tækin biðja um gögn og fá þau í sömu andrá. Þá býður 5G upp á mun meiri bandbreidd en fyrri tækni og mun öruggari/áreiðanlegri tengingar en nú þekkjast. Allt er þetta forsenda aukinnar sjálfvirknivæðingar til dæmis í verksmiðjum, landbúnaði og öðrum iðnaði. 5G tæknin mun einnig hafa mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu, hvort sem um er að ræða snjallvæðingu sjúkrahúsa, fjarhjúkrun og jafnvel fjaraðgerðir. 5G gegnir þannig lykilhlutverki í samskiptum milljarða tengdra hluta en sú þróun er þegar komin vel á veg. Þá mun 5G gera sjálfkeyrandi bílum, flygildum og vélmennum kleift að fá þær upplýsingar sem þau þurfa um umhverfi sitt, nógu hratt og örugglega til að geta forðast árekstra og óhöpp, nánast í rauntíma.

Ný tækni býður upp á ný tækfæri

Hraðar umbreytingar í fjarskiptum hafa opnað á ný tækifæri fyrir fyrirtæki til að nýta lausnir sem skapa langvarandi virði bæði fyrir rekstur sinn og samfélagið í heild. Viðskiptavinir hafa tekið landsdekkandi NB IoT og LTE-M fjarskiptakerfum félagsins opnum örmum og byrjað að nýta tækni sem getur enst í áratug eða lengur. Þessar lausnir eiga það sameiginlegt að nýta bæði minni aðföng og auðlindir og eru umhverfisvænar og hagkvæmar í rekstri.

Snjallmælar Veitna nýta NB IoT kerfi félagsins þar sem þeir þurfa minna rafmagn, lengri drægni og líftíma en áður, eða allt að 18 ár. Einnig eru veitufyrirtæki farin að nýta NB IoT til þess að fylgjast með vatnslekum í veitukerfum sínum í þeim tilgangi að geta brugðist fyrr við og komið sem fyrst í veg fyrir vatnsleka. Þessir skynjarar eru staðsettir á stöðum þar sem erfitt er að komast að. Því er mikilvægt að fjarskiptamerki skili sér vel ásamt löngum endingartíma á rafhlöðu til að fækka þjónustuferðum eins og hægt er. Þá má nefna að sveitarfélög hafa verið að taka upp skynjara fyrir sorphirðu. Þannig má draga úr akstri vegna sorplosunnar og þar með hafa jákvæð áhrif á kolefnislosun og minnka umferðarálag.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.