Okkar Sýn

Framsækin fjarskipti

Vodafone gegnir samfélagslega mikilvægu hlutverki en félagið gerir hundrað þúsund Íslendingum kleift að tengjast fólki og umheiminum á hverjum degi bæði í leik og starfi með því að bjóða upp á alhliða fjarskiptaþjónustu og snjallar og framúrskarandi vörur.

Markmið Vodafone er að skapa stafrænt samfélag sem allir geta tekið þátt í, óháð félagslegri og efnahagslegri stöðu, aldri og kyni. Tæknin og tækifærin sem hún skapar eiga að vera aðgengileg öllum og þannig stuðla að framþróun fyrir samfélagið allt.

Vodafone er eitt þekktasta vörumerki heims og fylgir eftir stefnu og stöðlum Vodafone Group. Merki Vodafone og myndheimur um allan heim er mikill aðgreiningarþáttur og auðþekkjanlegur. Myndheimurinn er raunverulegur, fjölbreyttur, rauður og hlýr. Vodafone leggur mikið uppúr því að sýna fjölbreytileika í efni sínu og að styðja við alla viðskiptavini þegar kemur að tækni óháð félagslegri og efnahagslegri stöðu, aldri og kyni.

Vodafone nýtir sína eigin miðla til að miðla efni, leiðbeiningum og öðrum upplýsingum, á vef fyrirtækisins, samfélagsmiðlum og í verslunum Vodafone. Jafnframt birtir Vodafone efni á miðlum Sýnar og nær þannig á auðveldan hátt til fjölda landsmanna. Vörumerkjaþekking Vodafone á Íslandi mælist 100% meðal almennings á Íslandi og um 83% landsmanna telja sig þekkja Vodafone vel eða mjög vel.

Stöðug og sjálfbær fjarskipti skipta Vodafone miklu máli og er lögð rík áhersla að tryggja rekstur þeirra. Á árinu var innleidd ný tækni sem einfaldar fólki, bæjarfélögum og jafnvel hlutum að tengjast saman. Höfuð áhersla er að koma á móts við þarfir nútímans er varðar net- og farsímasamband. Leiðarljós Vodafone er að viðskiptavinurinn vísar ávallt veginn og er stöðugt unnið að því að bæta þjónustu við viðskiptavini.

5G allan hringinn

5G uppbygging lék stórt hlutverk á árinu hjá Vodafone. Fjarskiptasamband hjá um 40 bæjarfélögum um allt land var bætt verulega. Alls 70 5G sendar voru settir upp til að tryggja rafræn samskipti þannig að viðskiptavinir Vodafone séu í góðu sambandi. Sífellt fleiri viðskiptavinir Vodafone velja einfaldleikann sem ný 5G þjónusta býður upp á. Þessi nýja tækni býður upp á enn meiri hraða og stöðugleika í nettengingum sem hentar bæði einstaklingum og heimilum. Á ýmsum stöðum á landsbyggðinni þar sem tengimöguleikar voru takmarkaðir áður, hefur 5G stórbætt samband og hefur upplifun og endurgjöf viðskiptavina Vodafone verið mjög jákvæð. Vodafone stefnir á enn frekari uppbyggingu á 5G kerfinu á árinu 2023.

Gott samband hvar og hvenær sem er

Eftir miklar ferðatakmarkanir á síðustu árum ferðuðust Íslendingar oftar erlendis en nokkru sinni fyrr á árinu 2022. Viðskiptavinir njóta góðs af alþjóðlegum samningum Vodafone á ferðalögum um allan heim og hringdu viðskiptavinir heim til Íslands frá yfir 130 löndum árið 2022. Á árinu hóf Vodafone opnanir á 5G reiki erlendis og undir árslok gátu viðskiptavinir notað 5G hjá 56 erlendum fjarskiptafélögum í 45 löndum. Fyrstu VoLTE opnanirnar fyrir viðskiptavini Vodafone erlendis komu inn undir lok árs. VoLTE (e. Voice over Long-Term Evolution) eykur gæði símtala en er jafnframt nauðsynlegur þáttur til að hefðbundin símtöl geti átt sér stað eftir að slökkt hefur verið á 2G og 3G kerfum fjarskiptafélaga.

Einfaldlega betra saman

Í lok árs var kynnt ný þjónustuleið, Stöð 2+ og Net sem hentar minni fjölskyldum og einstaklingum vel, en þar fær heimilið ótakmarkaða nettengingu og aðgang að stærstu streymisveitu landsins með innlent efni á hagstæðu verði. Varan hefur mælst vel fyrir meðal viðskiptavina og hafa áskrifendur að Stöð 2+ aldrei verið fleiri en í árslok.

Framúrskarandi þjónusta

Viðskiptavinurinn er í hjarta allra athafna Vodafone og í þjónustustefnu félagsins er lögð rík áhersla á að hlusta á viðskiptavini og fara fram úr væntingum þeirra. Á árinu 2022 var unnið að fjölmörgum verkefnum til að tryggja viðskiptavinum bestu mögulegu upplifun á þjónustu fyrirtækisins.

Ánægja viðskiptavina Vodafone hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og hefur ánægja aldrei mælst hærri en árið 2022 bæði í mælingum fyrirtækisins og samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni. Vodafone var eina fyrirtækið á fjarskiptamarkaði þar sem ánægja viðskiptavina jókst milli ára. Það er markmið Vodafone að eiga ánægðustu viðskiptavinina á fjarskiptamarkaði samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni og með frábærum vörum og framúrskarandi starfsfólki er unnið markvisst að því markmiði.

Betra símasamband

Með nýrri tækni koma nýjar lausnir og á árinu 2022 voru tvær stórar uppfærslur gerðar á gæðum símtala. Símkerfið var flutt af svokölluðu POTS kerfi yfir á heimasíma sem notar IP tækni (VoIP). Jafnframt var innleidd ný tækni fyrir farsímaþjónustu, VoLTE, sem eykur hljómgæði símtala til muna. Bæði heimasíma- og farsímaþjónusta byggja nú á því að símtöl fari í gegnum 4G og 5G í staðinn fyrir 2G og 3G. Þessi breyting felur í sér aukin gæði í þjónustu og tryggir viðskiptavinum Vodafone örugga heimasíma- og farsímaþjónustu.

Bætt upplifun

Vodafone vinnur statt og stöðugt að því að bæta þjónustu- og notendaupplifun viðskiptavina. Á árinu var bætt við þjónustustig til að minnka biðtíma viðskiptavina. Biðtími í þjónustuveri hefur minnkað verulega og var í loka árs tvær mínútur. Viðmót sjónvarpsþjónustu var breytt til að einfalda aðgengi að efni og leit að efni einfölduð og framsetning bætt, með upplifun viðskiptavina að leiðarljósi.

Yfir 11.000 viðskiptavinir fengu á árinu nýjan og öflugri router afhentan. Um 31% fleiri viðskiptavinir eru nú ánægðari með netsamband heimilisins en á árinu á undan. Ennfremur sýna mælingar að brottfall er mun minna hjá viðskiptavinum sem eru með nýja routerinn en öðrum.

Sterk staða á fyrirtækjamarkaði

Þjónusta fyrirtækjasviðs Vodafone snýr að því að styðja við þarfir og markmið fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum, allt frá einyrkjum upp í stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins. Ríflega 7.000 fyrirtæki treysta Vodafone fyrir fjarskiptum sínum og má þar nefna marga af þeim aðilum sem sinna öryggis- og neyðarþjónustu á Íslandi eins Neyðarlínuna, Landsbjörg, Ríkisútvarpið, Landhelgisgæsluna, Securitas, Landspítalann og Vegagerðina. Þessi fyrirtæki gera miklar kröfur um gæði, öryggi og góða þjónustu sem er Vodafone mikil hvatning um að vera ávallt í fremstu röð.

sigmaður

Leiðarljósið í samstarfi Vodafone og viðskiptavina eru góð samskipti með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Brottfall á fyrirtækjamarkaði er mjög lítið og var árangur í endurnýjuðum samningum framúrskarandi á árinu 2022. Um 90% af stærstu fyrirtækjum í viðskiptum eru með langtímasamning við fyrirtækið.

Það er stefna Vodafone að vera í fararbroddi á fjarskiptamarkaði. Lögð er mikil áhersla á að greina þarfir markaðarins með nýsköpun og vöruþróun. Það er mikill styrkur fyrir Vodafone að vera í alþjóðlegu samstarfi við Vodafone Group og á þann hátt gefst viðskiptavinum kostur á ráðgjöf á alþjóðamörkuðum og við nýsköpun sem hefur reynst vel og skapað ný tækifæri.

Snjallar lausnir

Vodafone er leiðandi í þjónustu hlutanets lausna (e. IoT) á heimsvísu og hjálpar sífellt fleiri viðskiptavinum að nýta sér hlutanetið. Tengdum tækjum fjölgar hratt og geta skynjarar og snjalltæki stutt við snjallvæðingu, aukið skilvirkni, dregið úr sóun og minnkað losun sem hefur haft jákvæð áhrif á sjálfbærnimarkmið fyrirtækja. Tengdir skynjarar geta sagt til hvort og hvenær þurfi að tæma sorptunnur og gáma, mæla meðal annars orkunotkun, loftgæði, umferð og hljóð og veita þannig upplýsingar í rauntíma. Vodafone hjálpar viðskiptavinum og samstarfsaðilum að ná árangri með snjallri ráðgjöf og réttum samskiptum sem henta hverju verkefni með hámarksnýtingu aðfanga að leiðarljósi.

Uppbygging dreifikerfis

Uppfærsla á fjarskiptakerfum gekk vel árið 2022 og býður Vodafone nú upp á landsdekkandi LTE-M kerfi sem er sérhannað fyrir tengd tæki og kemur til viðbótar við NB-IoT dreifikerfi en bæði kerfin tilheyra nýrri kynslóð farsímakerfa fyrir tengd tæki. Þetta gerir Vodafone kleift að hjálpa sífellt fleiri viðskiptavinum að tengja tæki til að bæta nýtingu og skilvirkni.

Fjarskipti nútímans eru á fleygiferð þar sem ör þróun og nýjar lausnir líta dagsins ljós á hverjum degi. Vodafone ætlar sér að vera áfram í fararbroddi á fjarskiptamarkaði.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.