Okkar Sýn

Framsæknir fjölmiðlar

Um 95% landsmanna á aldrinum 18-80 ára nota fjölmiðla Sýnar í hverri viku samkvæmt mælingum Gallup og 74,5% nota þá daglega. Niðurstaðan endurspeglar mikið traust til miðlanna og hvetur þá til að sýna sjálfstæði, fagmennsku og ábyrgð.

Öll vörumerki fjölmiðla Sýnar eru hluti af íslensku samfélagi og er það mikið ábyrgðarhlutverk. Stefna félagsins í samfélagsábyrgð er höfð þar að leiðarljósi. Við berum virðingu fyrir viðskiptavinum okkar og leggjum kapp á að veita þeim framúrskarandi upplifun og þjónustu.

Eitt af markmiðum fjölmiðla Sýnar er að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins og gefa fólki rödd. Efnið endurspeglar íslenskt samfélag með framúrskarandi íslensku fréttaefni og framleiðslu á menningar-, fræðslu- og skemmtiþáttum. Íslenskt íþróttaefni er stór hluti dagskrár fjölmiðlanna og mikil metnaður er lagður í að tryggja jafnvægi í umfjöllun um íþróttir kvenna- og karla. Á fjölmiðlum Sýnar er lögð áhersla á að stuðla að nýsköpun og framþróun til að tryggja sem besta þjónustu og upplifun fyrir viðskiptavini og hagaðila.

Kynningar og markaðsstarf fjölmiðlanna byggir á því að efla orðspor vörumerkja félagsins og ímynd. Markaðsefnið endurspeglar eðli dagskrárefnis hverju sinni og býður upp á aðgengi að fjölbreyttari umfjöllun og efnistökum. Upplýsingagjöf fer fyrst og fremst fram á eigin miðlum, í verslun Vodafone og á samfélagsmiðlum. Þannig fá viðskiptavinir upplýsingar með greiðum hætti.

Stöð 2 - Innlend þáttagerð í fyrirrúmi

Síðustu ár hefur sérstök áhersla verið lögð á vandaða, innlenda þáttagerð og var engin undantekning þar á árið 2022. Fjölmargir nýir þættir hófu göngu sína auk þess haldið var áfram með framleiðslu á vinsælustu þáttunum. Stærsta framleiðslan á árinu var án efa Idol sem hóf göngu sína að nýju eftir nokkurra ára hlé með frábærum viðtökum.

Með nýjum áherslum á Stöð 2 ætlar fyrirtækið að viðhalda góðri áskriftarstöðu og skapa stöðugleika í fjölda áskrifta. Lykillinn að því er að efla enn frekar áhorf milli kl. 18.00 til 20.00 á hverju kvöldi. Áherslan er byggja upp öflugri fréttatíma með frekari tengingu við íþróttafréttir og dægurmálaþáttinn Ísland í dag. Þessar breytingar munu ekki leiða til mikils umframkostnaðar heldur munu þær styðja við áform sem vvið höfum unnið að í nokkurn tíma. Í kjölfar 40-50 mínútna dægurmálaglugga er stefnt að því að frumsýna íslenskt sjónvarpsefni að minnsta kosti fimm kvöld vikunnar. Stöð 2 ætlar að skerpa enn frekar á sérstöðu hinnar línulegu sjónvarpsstöðvar með gagnvirkri þátttöku áhorfenda í formi kosninga, kannana, leikja ofl.

Stöð 2 Sport - Endurnýjun á íslensku sporti

Megináhersla og markmið íþróttadeildar er að bjóða upp á hágæða fréttaflutning og umfjöllun um íþróttir á íslensku, hvort sem er innlendar eða af alþjóðlegum vettvangi. Á árinu var af nógu að taka, enda mikill fjöldi viðburða í beinni útsendingu og fjölmargir þættir framleiddir, bæði umfjöllunarþættir og heimildaþættir.

Stöð 2 Sport er heimili íslenskra íþrótta enda mikill fjöldi leikja og þátta sýndur úr íslenskum fótbolta, handbolta og körfubolta. Á árinu fór Besta deildin, Íslandsmót karla og kvenna í fótbolta, fram undir nýju heiti en Sýn hefur tryggt sér sýningarrétt frá Bestu deildunum frá 2022 til 2026.

Allir leikir Bestu deildanna voru sýndir, ýmist á Stöð 2 Sport eða í Sportheimi Sýnar sem tók miklum breytingum á liðnu ári. Mikið af efni var þar gert aðgengilegt með auðveldum hætti, hvort sem um var að ræða beinar útsendingar eða upptökur af leikjum og þáttum.

Mikill fjöldi umfjöllunarþátta um íslenskar og erlendar íþróttir voru framleiddir á árinu, um íslenskan fótbolta, handbolta og körfubolta, Meistaradeild Evrópu, ensku bikarkeppnina sem og bandarísku NFL- og NBA-deildirnar.

Stærsta útsending Stöðvar 2 Sports á árinu var viðureign Vals og Tindastóls í lokaúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Útsendingin hlaut metáhorf og vakti leikurinn slíka athygli hjá íslensku þjóðinni að annað eins hefur ekki sést í íslenskum körfubolta. Alls sáu 8,8% þjóðarinnar leikinn sem vitanlega er birtingarmynd af mun fjölmennari hóp þar sem fæstir horfa á stórleiki í einrúmi.

Stöð 2 Sport hefur einnig sinnt heimildaþáttagerð af mikilli alúð. Á árinu var sýnd glæsileg heimildaþáttaröð í sex hlutum um Jón Arnór Stefánsson, fremsta körfuboltakappa sem Ísland hefur alið af sér. Þá hlutu þættirnir ,Víkingar – Fullkominn endir, Edduverðlaun sem besta íþróttaefni ársins. Fleiri verkefni af svipuðum toga eru í vinnslu og verða sýndir á næstu misserum.

Stöð 2+ - Streymisveita í sókn

Fyrir rúmu ári voru gerðar áherslubreytingar á Stöð 2+ með það að markmiði að styrkja sérstöðu hennar sem streymisveitu með íslenskt sjónvarpsefni. Allir þættir nema fréttir, dægurmálaþættir og beinar útsendingar fara beint inn á Stöð 2+ og eru frumsýndir þar samhliða útsendingu Stöðvar 2. Í vor setti fyrirtækið af stað Ævintýraheim barna á Stöð 2+ og er streymisveitan nú sú íslenska streymisveita sem býður upp á mest úrval af barnaefni með íslensku tali. Stöð 2 gerði einnig samning við dreifingaraðilann Kritic á árinu og hefur þannig aukið úrval evrópsks efnis á streymisveitunni. Stöð 2+ sló nýtt met í áskriftarsölu í desember þegar tæplega 45 þúsund heimili voru með áskrift.

Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar

Árið 2022 tók fréttastofan stórt skref í þá átt að vera sameinuð fréttastofa á öllum miðlum þar sem efnið hefur ráðið för í stað þess að takmarka sig við starfsstöðvar eða ákveðinn miðil. Þannig starfa fréttamenn og framleiðslufólk þvert á miðla í daglegu starfi þar sem fyrst og fremst er litið til þess hvaða miðill eða fréttaþáttur hentar best fyrir efnið. Markmiðið er skýrt; að bæta þjónustu við lesendur, áhorfendur og hlustendur enn frekar með því að miðla fréttaefni á sem bestan hátt – hvort sem það eru mikilvægar upplýsingar, djúp umfjöllun, fréttaskýringar eða umræða um mál sem eru í deiglunni.

Árangurinn lætur ekki á sér standa. Fréttamenn hafa vaxið og dafnað og náð að koma mikilvægum málum til skila, í réttum farvegi og á réttum miðli. Árið 2022 auk Stundarinnar fékk fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar flestar tilnefningar til Blaðamannaverðlaunanna árið 2022, eða þrjár talsins. Fréttastofan fékk tvær Eddutilnefningar fyrir frétta- eða viðtalsþátt ársins, jafn margar og dagskrárdeild Stöðvar 2. Þannig átti starfsfólk fyrirtækisins fjórar af fimm tilnefningum í flokknum.

Vísir

Vísir hefur ítrekað verið mest lesni vefur landsins á árinu. Á Vísi er hlaðborð efnis – allar fréttir fréttastofunnar, efni frá dagskrárdeild og útvarpi, hlaðvarpsþættir, sjónvarpsþættir og dægurefni. Þrátt fyrir hlaðborðið leggur fréttastofa áherslu á að Vísir sé fyrstur með áreiðanlegar og vel unnar fréttir jafnframt að þær séu aðgengilegar fyrir lesendur.

Tvær leiðir hafa stóraukið og einfaldað upplýsingaflæði til lesenda hratt og örugglega. Annars vegar að vera í beinni útsendingu á vefnum við hvert tækifæri; hvort sem það er blaðamannafundur, útsending frá næturlífinu í miðbænum eða umræður í sjónvarpssal. Hins vegar að vera með vakt þar sem allt það helsta um ákveðið málefni er sett undir sama hatt á vefnum - um leið og upplýsingar berast fréttastofu. Þannig fá lesendur fréttirnar beint í æð en auk þess yfirsýn. Stærstu vaktirnar á árinu eru Úkraínuvaktin sem var í loftinu fyrstu hundrað dagana eftir innrásina í Úkraínu og Veðurvaktin sem var virkjuð nokkrum sinnum á árinu í óveðri til að upplýsa lesendur um gang mála.

Kvöldfréttir og Ísland í dag

Í kvöldfréttum er sjónvarpsmiðillinn nýttur til hins ítrasta til að miðla helstu málum dagsins til áhorfenda. Áhersla er lögð á myndrænt efni, viðtöl við fólk - ekki eingöngu ráðamenn og sérfræðinga, og að vera í beinni útsendingu eins og kostur er.

Um helgar er lögð áhersla á lengri umfjallanir sem unnar eru með meiri undirbúningi og tíma. Þegar fréttamálin þurfa enn lengri tíma í vinnslu – hvort sem um er að ræða lengri viðtöl eða dýpri fréttaskýringu – vinnur fréttamaður innslag í Ísland í dag.

Mörg sterk fréttamál hafa ratað þangað á árinu sem fréttastofa hefur svo fylgt eftir. Þegar efnið eða viðmælandinn kallar á enn lengri umfjöllun er þeirri þörf mætt með sérstökum viðtalsþætti svo sem þegar Vigdís Finnbogadóttir gerði upp forsetatíð sína í viðtali við Heimi Má Pétursson í þættinum Vigdís – forseti á friðarstóli.

Annálar og Kryddsíld

Fréttastofa leggur mikið upp úr að gera upp árið – stærstu fréttirnar og jafnvel mál sem ekki enn eru leyst en mögulega búið að snjóa yfir. Til þess að kryfja málin og setja þau í samhengi fyrir almenning í stað einfaldrar upprifjunar - var árið gert upp í tuttugu annálum um jafn mörg fréttamál sem sýndir voru í desember.

Á gamlársdag viðhélt fréttastofa venju sinni með því að bjóða formönnum stjórnmálaflokkanna í Kryddsíld og gera upp árið. Í þægilegu andrúmslofti í einni glæsilegustu leikmynd sem gerð hefur verið fyrir þáttinn. Í umræðum skapaðist gott samtal milli ráðamanna – bæði snörp um pólitíkina og ögn mildari um persónuleg málefni.

Innherji og áskriftir á Vísi

Innherji var upphaflaga settur í loftið í lok árs 2021 en varð að áskriftarvef í lok árs 2022. Innherja er ritstýrt af Herði Ægissyni, sem er einn reyndasti viðskiptablaðamaður landsins. Markmið Innherja er að vera leiðandi í umfjöllun um viðskiptalífið, efnahagsmál og stjórnmál á Íslandi. Tilkoma Innherja markar áveðin tímamót fyrir Vísi, þar sem þetta er fyrsta áskriftarvaran sem boðið er upp á af þessum stærsta vefmiðli landsins. Sú tæknilega þróun sem hefur átt sér stað með tilkomu Innherja mun jafnframt leggja grunninn að því að hægt sé að stórbæta framboð af efni og þjónustum á Vísir. Við setjum okkur háleit markmið á þessu ári með fjölgun áskrifenda og nýjum viðfangsefnum.

Útvarp – Allir eru að hlusta!

Útvarpsstöðvarnar standa vel að vígi og hlusta 70,5% landsmanna á þær. Þessi árangur hefur leitt til aukningar auglýsingatekna auk áherslubreytinga á sölu auglýsinga. Samstarf auglýsingadeildar, dagskrárgerðarfólks og markaðsdeildar fjölmiðla hefur verið til fyrirmyndar og viðburðir á við Bylgjulestina, Garðpartý, tónleikaraðir á fimmtudagskvöldum og Eldhúspartý blómstrað. Sykurmolinn er orðinn árviss verðlaunahátíð á X-inu sem og Iðnaðarmaður ársins.

Stærsti viðburður útvarpsstöðvana er Hlustendaverðlaun Bylgjunnar, FM957 og X977 sem hefur unnið sér sérstakan sess hjá íslensku tónlistarfólki. Útvarpsstöðvarnar hafa aukið samstarf við Kíton, konur í íslenskri tónlist sem fá sérstaka athygli á verðlaunahátíðinni í vor.

Útvarpsstöðvar fjölmiðla Sýnar hafa tekið miklum jákvæðum breytingum á undanförnum árum. Til dæmis hefur markvisst verið unnið að því að fjölga konum í dagskrárgerð sem hafa komið með ferska nálgun inn í þáttagerðina.

Tal - Hlaðvarpsheimur

Uppbygging á hlaðvarpsheimi Sýnar, undir nafninu Tal hélt áfram á árinu og er einn helsti vaxtarbroddur fjölmiðla fyrirtækisins. Áskriftartengd hlaðvörp á vegum Tal eru nú aðgengileg í gegnum útvarpsöpp Bylgjunar, FM957 og X-ins. Blökastið er eitt stærsta áskriftarhlaðvarpið á Íslandi í dag og fyrsta sería af Eftirmálum fékk gríðarlega góða hlustun á árinu.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.